19 April 2010

komin á fertugsaldurinn

já við erum búin að ákveða það hér á bæ að það sé algjör vitleysa að vera að gera fólk eldra en það er. Ég er nú bara rétt komin á fertugsaldurinn eins og útlendingarnir segja. Auðvitað er rétt að telja svona, við erum alltaf að flýta okkur svo mikið að við náum aldrei að njóta stundarinnar og staðsins sem við erum á núna, já núna. Við segjum að klukkan sé farin að ganga sex þegar hún er fimm mínútur yfir fimm, hvaða vitleysa er þetta eiginlega. Við mæðgur mótmælum þessu og segjum sko ekki að hún GM sé komin á tvítugsaldurinn, enda kornung barnið.

Annars átti ég bara ljúfan dag, fór í vinnuna mína, kenndi yndislegum þriðjubekkingum að sauma út, snúa bönd og prjóna. Hvað er þetta annars með grunnskólabörn, það kann enginn að binda hnút..... ég hélt að þetta væri bara svona eins og að kunna að skeina sig, bursta tennurnar eða kasta bolta, eitthvað sem allir á grunnskólaaldri eiga að kunna. Nei nei börn alveg upp í 7. bekk kunna ekki að binda hnút, og þá er ég ekki að tala um fjórfaldan skátahnút heldur bara einfaldan hnút.....

Jú sem sagt, þegar ég var búin í vinnunni, fór ég á rölt niður í bæ. Fór fyrst í Pfaff og lét mig dreyma um overlock vél sem kostar 140.000 bara, fékk bækling og allt! Fór svo í Fiðrildið og keypti nokkra notaða boli á L. Stórkostleg búð og falleg í alla staði, afgreiðslustelpan svo næs og almennileg, allt svo fallegt þar, ég fer þangað aftur, pottþétt. Síðan var arkað niður á Laugaveg, þar inn í nokkrar uppáhaldsbúðir eins og Storkinn, Kron, Heilsuhúsið, Kisuna, Nálina og svo uppgötvaði ég Andersen og Lauth, held ég að hún heiti, við hliðina á Kisunni, mjög flott og mjög dýr. En það er víst útsölumarkaður ofarlega á Laugaveginum sem ég kíki í síðar.

Tókst samt ekki að eyða neinu, nema í eitt brauð í Heilsuhúsinu, það er nú alveg fjárfesting!!
Fór heim, sótti L, var heima í rólegheitum. Þegar allir voru komnir heim af æfingum fórum við og náðum í G í vinnuna og borðuðum á Eldsmiðjunni. Nokkuð góðar pizzur, þó ekki þær bestu í bænum.

Fékk rósir frá G.

Fórum heim, Guðmundur bróðir og hans fam komu, gáfu mér afmælisgjöf og kossa. Börnin í háttinn, rólegheit í sófanum. Tölvan.

Sem sagt hinn indælasti dagur, venjulegur en samt góður. Gott að vera komin á fertugsaldurinn!

1 comment:

  1. Þetta er alveg rétt hjá þér með fertugsaldurinn, fáránlegt að gera mann 10 árum eldri en maður er.

    ReplyDelete