01 July 2010

Heim frá London

Jæja þá eru tvennir af þessum þrennum skóm komnir í hús. Hlaupaskórnir voru keyptir á 14.000 en kosta hér 35.000. Geggjaðir skór sem ég er búin að prófa. Við GM fórum að hlaupa áðan, báðar á nýjum skóm.
Rauðu skórnir voru líka keyptir, þeir voru á útsölu á Oxford Street og kostuðu 49 pund. Þeir eru æðislegir bæði flottir og þægilegir.
Svörtu skóna langaði mig líka í en gat ekki keypt þá líka.

12 June 2010

Skór

Mig langar í skó. 

Mig langar í þrenna skó. Ég fór í Smáralind í dag og sá nokkur pör sem mig langar mikið í. En keypti ekki neitt því ég ætla að athuga hvort London bjóði betra verð. 

Asics GEL-Nimbus 11 Women Running Shoes - White

Þetta eru fyrstu skórnir sem mig langar í. Hlaupaskór sem maður svífur í, ég hef aldrei stigið í skó sem eru jafn mótaðir fyrir minn fót og þessir. Þeir eru fullkomnir, allt nema verðið sem er ansi mikið. En planið er sem sagt að fara að hlaupa og þá vil ég ekkert nema góða skó.

SUMMER ZONE

Þetta eru skór nr tvö sem mig langar í. Þetta eru leðurstrigaskór frá Ecco. Mér finnst þeir ógeðslega flottir en ég mátaði þá áðan og 39 er eiginlega of lítið og 40 er aðeins of stórt. Þannig að ég ætla aðeins að melta það.

JUMP

Þetta eru svo þriðju skórnir sem mig langar í. Þeir eru líka frá Ecco. Ég sá þá bara á netinu en ekki í búðinni í Smáralind. Kannski eru þeir til í London hver veit.

En eftir þessa bæjarferð var það bara JÁ sem fékk skó.

19 April 2010

komin á fertugsaldurinn

já við erum búin að ákveða það hér á bæ að það sé algjör vitleysa að vera að gera fólk eldra en það er. Ég er nú bara rétt komin á fertugsaldurinn eins og útlendingarnir segja. Auðvitað er rétt að telja svona, við erum alltaf að flýta okkur svo mikið að við náum aldrei að njóta stundarinnar og staðsins sem við erum á núna, já núna. Við segjum að klukkan sé farin að ganga sex þegar hún er fimm mínútur yfir fimm, hvaða vitleysa er þetta eiginlega. Við mæðgur mótmælum þessu og segjum sko ekki að hún GM sé komin á tvítugsaldurinn, enda kornung barnið.

Annars átti ég bara ljúfan dag, fór í vinnuna mína, kenndi yndislegum þriðjubekkingum að sauma út, snúa bönd og prjóna. Hvað er þetta annars með grunnskólabörn, það kann enginn að binda hnút..... ég hélt að þetta væri bara svona eins og að kunna að skeina sig, bursta tennurnar eða kasta bolta, eitthvað sem allir á grunnskólaaldri eiga að kunna. Nei nei börn alveg upp í 7. bekk kunna ekki að binda hnút, og þá er ég ekki að tala um fjórfaldan skátahnút heldur bara einfaldan hnút.....

Jú sem sagt, þegar ég var búin í vinnunni, fór ég á rölt niður í bæ. Fór fyrst í Pfaff og lét mig dreyma um overlock vél sem kostar 140.000 bara, fékk bækling og allt! Fór svo í Fiðrildið og keypti nokkra notaða boli á L. Stórkostleg búð og falleg í alla staði, afgreiðslustelpan svo næs og almennileg, allt svo fallegt þar, ég fer þangað aftur, pottþétt. Síðan var arkað niður á Laugaveg, þar inn í nokkrar uppáhaldsbúðir eins og Storkinn, Kron, Heilsuhúsið, Kisuna, Nálina og svo uppgötvaði ég Andersen og Lauth, held ég að hún heiti, við hliðina á Kisunni, mjög flott og mjög dýr. En það er víst útsölumarkaður ofarlega á Laugaveginum sem ég kíki í síðar.

Tókst samt ekki að eyða neinu, nema í eitt brauð í Heilsuhúsinu, það er nú alveg fjárfesting!!
Fór heim, sótti L, var heima í rólegheitum. Þegar allir voru komnir heim af æfingum fórum við og náðum í G í vinnuna og borðuðum á Eldsmiðjunni. Nokkuð góðar pizzur, þó ekki þær bestu í bænum.

Fékk rósir frá G.

Fórum heim, Guðmundur bróðir og hans fam komu, gáfu mér afmælisgjöf og kossa. Börnin í háttinn, rólegheit í sófanum. Tölvan.

Sem sagt hinn indælasti dagur, venjulegur en samt góður. Gott að vera komin á fertugsaldurinn!

12 April 2010

dottin í tölvuna

Já ég hef nú ekkert skrifað inn á þetta blogg svo vikum skiptir. Það mætti halda að ég væri ekki að gera neitt af viti en svo er nú víst ekki. Ég hef alveg nóg á minni könnu og meira að segja of mikið fyrir minn smekk.

Það er vinnan, sem mér finnst ég alltaf geta sinnt betur, verið betur undirbúin, tekið betur til í stofunni, fundið fleiri verkefni sem gott væri að prófa og svo framvegis.

Það eru blessuð börnin, loksins (sjöníuþrettán) er L orðin frísk. Hún blómstrar alveg, fór út í dag með systkinum sínum og sagði þegar hún kom inn: mamma, gaman úti! Ég skrapp inn á leikskólann í dag og fékk að vita að hún má byrja 25. ágúst í aðlögun á Dvergasteini. Mér líst auðvitað vel á það en þarf að brúa 10 daga bil, því ég geri ráð fyrir að byrja að vinna um 15. Sem betur fer eigum við 2 stk ömmur sem vilja gjarnan passa þannig að þetta reddast. J hugsar ekki um annað en fótbolta, hvernig er hægt að hugsa svona mikið um áhugamálið sitt, það kemst bara ekkert annað að (ég skil ekki......) G er svo dugleg að passa L og samviskusöm. Hún teiknar og teiknar þegar hún á lausa stund, allt ótrúlega flott hjá henni.

Það er hin vinnan, sem ég er alltaf með yfir hausnum á mér. Nú veit ég hvernig ég væri ef ég væri í námi með vinnu, með stanslaust samviskubit. En þetta gengur nú ágætlega hjá mér, það er samt kominn miður apríl og allt á að vera tilbúið í maí, úpps....

Svo er það London ferðin sem nálgast óðfluga. Nú er ég orðin nokkuð spennt, G er alltaf að spyrja mig hvort ég sé ekki orðin spennt, hann er löngu búinn að plana alla dagana, allt gert fyrir mig að sjálfsögðu þessi elska. Garnbúðir, litlar sætar götur, grænmetisveitingastaðir, lífrænar búðir, markaðir......... kannski ég komi með honum í svo sem eina plötubúð, bara til að vera næs.

Svo er það áhugamálið, prjónið er alltaf það skemmtilegasta sem ég geri. Finnst ég alltaf þurfa að grípa í það annað slagið eða réttara sagt á milli húsverka. Finnst mjög gott að taka nokkrar umferðir áður en ég brýt saman þvottinn. Þegar ég er búin með hælinn set ég í vél. Þarf ekki L örugglega eina vettlinga í viðbót?? Ég held að þetta sé fíkn, annars hef ég líka aðra fíkn og það er súkkulaði. En ég er búin að segja við sjálfa mig, alltaf þegar mig langar í súkkulaði þá prjóna ég frekar eina umferð. Ég er að vona að þetta dugi...... hmmmmm.....

gott í bili

16 January 2010

Endurunnið þema

Á þessari síðu má finna endurunnar boxer buxur búnar til úr gömulum bolum, algjör snilld. Ég væri til í að prófa þetta, veit ekki hvort JÁ væri til í að vera í heimasaumuðum nærbuxum en mig langar samt að prófa.

http://burkeshires.blogspot.com/2010/01/toddlerboys-boxer-briefs.html

22 November 2009

Endurunninn kjóll




Hér er kjóllinn sem ég gerði á Lilju Katrínu úr þessum bol sem ég átti. Útkoman er frábær að mínu mati, hann passar fullkomlega og endurvinnslufílingurinn er fullkominn.


06 October 2009

Kvöldmatur


Guðrún María eldaði kvöldmat í gærkvöldi. Innbakaðar pulsur í brauði og grænmeti með. Þetta var rosalega gott og frábært að þurfa ekki að elda. Hún fann þessa uppskrift í uppskriftabók barnanna sem við eigum og er margt mjög girnilegt í henni.
Namm namm....